Starfið á Íslandi

Alþjóðlega barnahjálpin (International Children’s Care, ICC) eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að hlúa að munaðarlausum og yfirgefnum börnum. Samtökin eru kristin og byggist hugmyndafræði þeirra á því að búa þeim börnum sem eru í umsjón þeirra öruggt heimili, kærleiksríka fjölskyldu og góða menntun.

Á hverjum stað reisa samtökin svokallað barnaþorp, eða þyrpingu húsa þar sem 8-10 börn búa í hverju húsi ásamt innfæddum hjónum sem ganga þeim í móður- og föðurstað. Samtökin hafa starfsemi um allan heim, auk svokallaðra stuðningslanda. Ísland er eitt þessara landa og styrkir félagið hér á landi aðallega starf félagsins í Rúmeníu og A-Kongó.

Rúmenía

Austur-Kongó

Aðkoma Íslandsdeildarinnar  í Rúmeníu hófst í kringum 2000 þegar íslensk hjón hjálpuðu til við að fjármagna borun á brunni við svæði barnaþorpsins sem nýtist nú bæði því og nálægu sveitaþorpi. Þá söfnuðu Íslendingar, búsettir á Íslandi og í Bandaríkjunum, fjármagni fyrir byggingu heimilis fyrir eina fjölskyldueiningu í barnaþorpinu. Í gegnum árin hefur myndast gott samband milli verkefnisins í Rúmeníu og íslensku deildarinnar og hefur félagið hér heima staðið fyrir 4 sjálfboðaliðaferðum til barnaþorpsins. Ferðir sem þátttakendur segja margir hverjir að hafi breytt viðhorfi þeirra til lífsins til frambúðar. Auk þess að leggja fé til almennrar starfsemi barnaþorpsins hefur Íslandsdeild Alþjóðlegu barnahjálparinnar ásamt ICC í Evrópu stutt barnaþorpið í Rúmeníu með því að koma upp gróðurhúsum og bakaríi til að stuðla að aukinni sjálfbærni þorpsins.

Árið 2007 ákvað stjórn félagsins á Íslandi svo að hefja einnig stuðning við barnaþorp félagsins í A-Kongó og hefur alla tíð síðan 2008 haft það verkefni í forgrunni. Aðkoma Íslendinga að þessu verkefni hefur verið í formi styrkja til daglegs reksturs, en félagið gaf einnig upphæð til byggingar gagnfræðaskólans, til kaupa á bát til að auðvelda aðflutning nauðsynjavara til barnaþorpsins, til að setja upp vatnsveitu í barnaþorpinu og byggja eldhús við eitt heimilanna í barnaþorpinu auk margra minni verkefna.

Starfsemi Alþjóðlegu barnahjálparinnar á Íslandi er öll rekin í sjálfboðavinnu og féð sem við söfnum er sent beint til verkefnanna í Rúmeníu og A-Kongó. Helstu leiðir okkar til fjáröflunar eru gjafir einstaklinga, í gegnum styrktarverkefni en líka í tengslum við ýmsar uppákomur, eins og fjölskyldudaga, bingó, félagsvist, flöskusöfnun og tónleika.

Um eftirlit með verkefnum okkar í Rúmeníu og A-Kongó sjá aðalskrifstofa Alþjóðlegu barnahjálparinnar, sem staðsett er í Bandaríkjunum og yfirskrifstofa starfsins í Evrópu. Sú síðarnefnda er staðsett í Hollandi. Reglulegar fréttir af verkefnum okkar hjálpa félaginu að miðla upplýsingum til stuðningsaðila okkar hérlendis og sendir félagið reglulega frá sér netfréttabréf.

Hafðu samband til að skrá þig á póstlista Alþjóðlegu barnahjálparinnar eða til að fá nánari upplýsingar um starfið.