Alþjóðlega barnahjálpin hættir

Við sem stöndum að Alþjóðlegu barnahjálpinni á Íslandi (International Children´s Care in Iceland), bæði styrktaraðilar og sjálfboðaliðar, höfum eftir 20 ára samstarf ákveðið að hætta stuðningi við International Children´s Care samtökin og munum leggja niður félagið hér á landi. Ástæða þess að við þurftum að taka þessa erfiðu ákvörðun er að framkvæmdar- og yfirstjórn International Children´s Care hefur þráfaldlega neitað ósk okkar um að gera strax óháða rannsókn vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, svindl og fleira í einu af barnaþorpi félagsins. Við getum ekki starfað með og fyrir félagið sem hlustar hvorki á vitnisburði barna í þeirra umsjón né á áhyggjur sjálfboðaliða og styrktaraðila sem starfað hafa í þágu félagsins í áraraðir. Við hér á Íslandi viljum engan þátt taka í þeirri menningu gerandameðvirkni og þöggunar sem félagið virðist kjósa frekar en opið og gegnsætt átak til að skoða þessar alvarlegu ásakanir af heilum hug og gera nauðsynlegar úrbætur. Óháð rannsókn er að okkar mati eina rétta leiðin vegna alvarleika ásakannanna, til að verja rétt og öryggi barna og starfsfólks barnaþorpsins og vegna sterkra vináttubanda stjórnenda International Children´s Care við meintan geranda. Þær lausnir sem félagið leggur til í þessu máli eru í okkar huga gerðar með hálfum hug og eru jafnframt óásættanlegar enda líklegar til að valda ungum konum sem lent hafa í mjög erfiðum aðstæðum og ofbeldi enn frekari skaða. Þá fordæmum við gróft trúnaðarbrot International Children´s Care við unga konu sem kom fram í málinu og setjum stórt spurningamerki við aðgerðir félagsins til að sverta mannorð ungs fólks og jafnvel lögsækja vilji það koma á framfæri athugasemdum við starf félagsins.

Við hefðum öll viljað halda áfram að styrkja börnin og ungmennin í barnaþorpum félagsins en stjórnendur International Children´s Care hafa gert okkur það ómögulegt. Hver vill styrkja starfsemi sem ekki vill láta skoða á óháðan hátt ásakanir um að ungar stúlkur séu beittar eða hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun? Börnin og ungmennin eiga að fá að njóta vafans og við höfum ákveðið að standa með þeim. Við heyrum ákall ykkar kæra hugrakka unga fólk sem komið hefur fram með sögur ykkar og við stöndum með ykkur.